Stefna um skipulag haf- og strandsvæða

Stefna um skipulag haf- og strandsvæða er sett fram í landsskipulagsstefnu.

Þingsályktun um Landsskipulagsstefnu 2015–2026 var samþykkt á Alþingi árið 2016. Þar er sett fram stefna um skipulagsmál á landsvísu til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga, skipulagsgerð og nýtingu á haf- og strandsvæðum og aðra áætlanagerð um landnotkun og byggðaþróun.  

Kynningarmyndband um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða í Landsskipulagsstefnu 2015-2026. 

Í Landsskipulagsstefnu 2015–2026 eru sett fram leiðarljós sem leggja skal til grundvallar allri skipulagsgerð, þ.m.t. á haf- og strandsvæðum. Þau eru:

  • Að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun
  • Að skipulag sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags og umhverfisbreytingum
  • Að skipulag stuðli að lífsgæðum fólks
  • Að skipulag styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta


Í landsskipulagsstefnu er sett fram eftirfarandi stefna um skipulag haf- og strandsvæða:

SKIPULAG Á HAF- OG STRANDSVÆÐUM

Skipulag haf- og strandsvæða veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu um leið og viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland.

Sjálfbær nýting auðlinda

Skipulag nýtingar á haf- og strandsvæðum grundvallist á heildarsýn á málefni hafsins þar sem viðhaldið verði heilbrigði, líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins. Skipulagsákvarðanir um staðbundna nýtingu á haf- og strandsvæðum byggist á vistkerfisnálgun og stuðli þannig að viðhaldi vistkerfa og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Skýr og skilvirk stjórnsýsla skipulagsmála

Stjórnsýsla skipulagsmála á haf- og strandsvæðum verði skýr og samræmd. Aðkoma ólíkra stjórnvalda og hagsmunaaðila að skipulagsvinnunni verði tryggð og leitast við að koma í veg fyrir árekstra ólíkrar nýtingar og verndarsjónarmiða.

Svæðisbundin skipulagsgerð

Komið verði á fót svæðisbundinni skipulagsgerð fyrir haf- og strandsvæði næst landi sem veiti grundvöll fyrir nýtingu haf- og strandsvæða, taki mið af mismunandi hagsmunum og samþættingu nýtingar og verndar við ströndina, þar sem gæta þarf samræmis milli skipulags á landi og hafi.


Nánari upplýsingar um landsskipulagsstefnu má nálgast á landsskipulag.is