Breyting á reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags
Innviðaráðherra undirritaði þann 1. febrúar 2022 reglugerð sem er breyting á reglugerð nr. 330/2020 um gerð strandsvæðisskipulags. Breytingin felur í sér skilgreiningu á nýtingarflokkum fyrir framsetningu strandsvæðisskipulags á uppdrætti og í greinargerð. Nýtingarflokkarnir fela í sér áherslur um nýtingu á tilteknu svæði, auk þess að lýsa því hvaða önnur nýting er möguleg á viðkomandi svæði. Nýtingarflokkarnir, sem skal nota eftir því sem við á, eru eftirfarandi:
a. Staðbundin nýting
b. Almenn nýting
c. Umhverfi og náttúra
d. Siglingar
e. Lagnir og vegir
f. Orkuvinnsla
Með breytingunni er fest í sessi samræmd umgjörð um stefnu og skipulagsákvæði í strandsvæðisskipulagi en nýtingarflokkar fyrir gerð strandsvæðisskipulags eru sambærilegir landnotkunarflokkum í aðalskipulagi sveitarfélaga sem skilgreindir eru í skipulagsreglugerð n.r 90/2013.
Nánari upplýsingar um hvern nýtingarflokk má finna í reglugerðarbreytingunni, nr. 196/2022 , á vef stjórnartíðinda en hún var birt þar þann 16. febrúar síðastliðinn.