19.12.2022

Strandsvæðisskipulag Vestfjarða samþykkt af svæðisráði

Tillaga að strandsvæðisskipulagi á Vestfjörðum, þar sem mótuð er stefna um nýtingu og vernd á strandsvæðum Vestfjarða, var auglýst til opinberrar kynningar í samræmi við 12. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 og stóð kynningartími tillögunnar frá 15. júní - 15. september.

Skipulagstillagan ásamt fylgigögnum var birt á vef Skipulagsstofnunar og auglýst í Bændablaðinu, Fréttablaðinu, Lögbirtingarblaðinu, Morgunblaðinu og á öðrum staðbundnum miðlum á Vestfjörðum sem og á vefjum aðliggjandi sveitarfélaga. Þrír opnir kynningarfundir voru haldnir á Vestfjörðum um tillöguna í júní. Að auki var haldinn sameiginlegur kynningarfundur fyrir tillögur að strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Vestfjarða í Reykjavík í ágúst, sem einnig var streymt.

Svæðiráði bárust alls 126 athugasemdir við tillögu að strandsvæðisskipulagi á Vestfjörðum. Nú liggur fyrir samantekt á skriflegum athugasemdum sem bárust við tillöguna og viðbrögð svæðisráðs við þeim. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda og tillagan uppfærð eftir atvikum.

Svæðisráð samþykkti 7. desember síðastliðinn tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Í kjölfarið var tillagan send innviðaráðherra til staðfestingar í samræmi við 13. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, og bíður hún nú staðfestingar ráðherra.

Viðbrögð svæðisráðs við framkomnum athugasemdum ásamt uppfærðum gögnum tillögunnar má nálgast hér að neðan.